Færsluflokkur: Bloggar
12.11.2010 | 10:09
Svör við spurningum Biskupsstofu
Hin evangelíska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum.
1. Telur þú þörf á að breyta þessari grein? Ef svo er hvernig?
2. Hver er afstaða þín til núverandi sambands ríkis og þjóðkirkju?
Í kynningarefni sem ég hef sett á Facebook, blog.is og svipan.is segi ég orðrétt: Það þarf að endurskoða samband kirkjunnar og þjóðarinnar ásamt því að tryggja trúfrelsi og jafnræði trúfélaga. Það sem ég segi hér á ekki aðeins við 62. gr. stjórnarskrárinnar heldur líka 63. greinina.
Ég hef þá skoðun að hugtakið þjóðkirkja sé úrelt og eigi ekki lengur við nú á 21. öldinni. Það þýðir samt ekki að ríkisvaldið eigi ekki að styðja við og vernda hina envangelísku lútersku kirkju. En ríkisvaldið á jafnframt að styðja við og vernda önnur trúfélög t.d. miðað við höfðatölu svo gætt sé jafnræðis meðal trúfélaga eins og á öðrum sviðum.
Rétt þykir mér að segja hér að ég tel mig vera kristinn og er alinn upp í kristinni trú og hef alið mín börn upp í sömu trú. Ég sagði mig úr þjóðkirkjunni snemma á þessu ári eftir langa umhugsun og skráði mig í söfnuð Fríkirkjunnar í Reykjavík.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.11.2010 | 20:12
Hvað vil ég gera á stjórnlagaþingi?
Nú með birtingu framboðslistans til þingsins er það orðið ljóst hverjir hafa fullnægt skilyrðum til framboðs og skilað tilskildum gögnum þar um. Ég skilaði mínum rafrænu gögnum til landskjörstjórnar 13. október en hafði tveimur dögum áður sent í ábyrgð lista með 50 meðmælendum hver með tveimur vottum.
Eins og ég átti von á er ég nú formlega kominn í framboð til stjórnlagaþings og hef fengið úthlutað auðkennistölu sem nota skal á kjörseðil þegar kosið verður til þingsins. Auðkennistala mín og nafn eru eftirfarandi:
6087 Finnbjörn Gíslason
Þá er komið að því að svara spurningunni hér að ofan. Stjórnlagaþinginu er settur ákveðinn rammi með lögum um hvað þar skal unnið. En til að segja þetta á einfaldan máta þá er þinginu ætlað að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins með hliðsjón af þeim meginsjónarmiðum sem fram munu koma á þjóðfundi núna 6. nóvember. Að auki vænti ég þess og vona að hver sá sem kosinn verður til setu á þinginu fari að eigin sannfæringu og af heilindum en ekki samkvæmt einhverjum flokkspólitískum línum eða fyrirmælum.
Mín skoðun er sú að endurskoða þurfi flesta þætti núverandi stjórnarskrár og jafnvel auka þar við einhverjum þáttum s.s. varðandi skýlausa ábyrgð stjórnar, ráðherra, þingmanna og skipaðra embættismanna á sínum störfum og athöfnum öllum. Eftirfarandi eru nokkrir þættir sem ég vil leggja áherslu á meðan ég sit þingið:
1. Það þarf að setja skorður á framsal sjálfstæðis þjóðarinnar og / eða eignum hennar s.s. auðlindum bæði til sjávar og sveita.
2. Það þarf að kveða skýlaust um eignarrétt þjóðarinnar á auðlindum.
3. Það þarf á sama hátt að skoða framsal á eignum sveitarfélaga og / eða annarra sem takmarkað geta afkomumöguleika íbúa sveitarfélaganna.
4. Það þarf að tryggja frumbyggjarétt bæði til sjávar og sveita.
5. Það þarf að tryggja mannréttindi öllum til handa.
6. Það þarf að tryggja hverjum einstaklingi mannvirðingu og reisn.
7. Það þarf að tryggja að jafnræði sé tryggt varðandi einstaklinga, fyrirtæki og atvinnuvegi.
8. Það þarf tvímælalaust að endurskoða skipun dómsmála.
9. Það þarf að skoða skipun embættismanna allra þ.m.t. dómara á öllum stigum til að skapa farveg sem tryggir heiðarleika og óvilhallar ákvarðanir hvar sem þær eru teknar.
10. Það þarf að setja afdráttarlausar reglur um ábyrgð valdhafanna og skipaðra embættismanna og viðurlög sé traust rofið.
11. Það þarf að varða þá sektum og / eða fangelsi er ábyrgð bera á stjórnarskrárbrotum.
12. Það þarf að tryggja þjóðinni farveg til að koma sínum skoðunum á framfæri s.s. í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu.
13. Það þarf að skoða embætti forseta lýðveldisins og það hlutverk sem embættinu er ætlað.
14. Það þarf að tryggja tjáningarfrelsi hverskonar.
15. Það þarf að endurskoða samband kirkjunnar og þjóðarinnar ásamt því að tryggja trúfrelsi og jafnræði trúfélaga.
Þetta er hvorki tæmandi listi né er hann í röð eftir áherslum en er frekar hugsaður sem byrjun á minni umræðu varðandi endurskoðun á stjórnarskrá Íslands sem er fyrir löngu orðin tímabær.
Hvet ég þá sem vilja benda mér á einhverja þætti sem leggja þarf áherslu á að senda mér tölvupóst á netfangið finnbjorn@simnet.is .
Virðingarfyllst,
Finnbjörn Gíslason,
Sunnubraut 5a,
370 Búðardalur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.10.2010 | 20:56
Kynning á frambjóðanda til stjórnlagaþings
Ég ann mínu landi og þjóð og vil leggja mitt að mörkum til að skapa okkur öllum tryggari framtíð en orðið hefur síðustu tvö árin. Ennfremur er það orðið ljóst fyrir mörgum árum að það hefur verið Alþingi / stjórnvöldum um megn að gera nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins til að aðlaga hana að breyttum tímum. Núverandi stjórnarskrá, sem við erfðum frá Dönum og getum verið þakklát fyrir, er á annað hundrað ára gömul þó hún hafi ekki tekið gildi fyrr en 17. júní 1944. Í mínum huga er það stórkostlegur heiður að fá mögulega í gegnum væntanlegt stjórnlagaþing að taka þátt í því að setja saman skjal sem getur orðið grunnur að framtíðar sjálfstæði og velferð lýðveldisins Íslands.
Menntun / starfsreynsla
Stærstur hluti starfsferils míns, eða um 37 ár, var kringum tölvur. Síðustu 5 ár hef ég starfað við ýmis skrifstofustörf, þ.á.m. um hálft ár sem svæðisfulltrúi RKÍ á Vesturlandi. Seinni árin hef ég lært starfsmannastjórnun hjá EHÍ, hómópatíu (smáskammtalækningar) hjá ICPH og heilun hjá BBSH í Miami. Starfa nú sem gjaldkeri á sýsluskrifstofu Dalabyggðar og sem heimavinnandi húsfaðir.
Fjölskylduhagir
Ég er giftur Margréti Jóhannsdóttur og til samans eigum við 7 börn á aldrinum 15 til 41 árs. Lísa Margrét 15 ára er sú eina sem enn býr heima og stefnir á að ljúka 10. bekk í Búðardal um áramótin. Barnabörnin eru 8. Sem stendur erum við hjónin í fjarbúð, þ.e. Margrét vinnur í Reykjavík en ég í hálfu starfi á sýsluskrifstofu Dalabyggðar í Búðardal og bý þar ásamt Lísu.
Heimili: Sunnubraut 5a,370 Búðardal.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Finnbjörn Gíslason
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar